Sænski knattspyrnumaðurinn Pawel Cibicki hefur hafið æfingar með sænska úrvalsdeildarliðinu Värnamo. Það má Cibicki hins vegar ekki þar sem hann er enn í keppnisbanni eftir að hafa gerst sekur um veðmálasvindl.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, úrskurðaði Cibicki á sínum tíma í fjögurra ára keppnisbann eftir að sænska knattspyrnusambandið hafði gert slíkt hið sama nokkrum mánuðum fyrr.
Bannið rennur sitt skeið 1. febrúar næstkomandi en þrátt fyrir það er hann mættur til æfinga. Því hefur sænska sambandið komið á fót rannsókn.
„Í ljósi frétta gærdagsins um að Pawel Cibicki æfi með IFK Värnamo hefur sænska knattspyrnusambandið komið á fót rannsókn þennan miðvikudag þar sem gengið verður úr skugga um hvort brotið hafi verið gegn skilyrðum leikbanns sem kom til vegna brota á reglum sambandsins um veðmál,“ sagði í tilkynningu frá sænska knattspyrnusambandinu.
Málið laut að því að Cibicki fékk viljandi gult spjald í leik með Elfsborg gegn Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni árið 2019 og fékk greitt fyrir. Þá lék hann sem lánsmaður frá enska félaginu Leeds United.
Upphæðin sem Cibicki fékk greidda, um 4,3 milljónir íslenskra króna, sagði hann sjálfur að hafi einfaldlega verið lán.
Skömmu áður en leikur Kalmars og Elfsborg hófst voru 27 nýir veðmálareikningar stofnaðir og áttu þeir það allir sameiginlegt að veðja á að Cibicki myndi fá gult spjald í leiknum.
Auk leikbanns var hann dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir sinn hlut í málinu.