Dalvíkingurinn skrifaði undir í Rotterdam

Nökkvi Þeyr Þórisson skrifaði undir lánssamning í Rotterdam.
Nökkvi Þeyr Þórisson skrifaði undir lánssamning í Rotterdam. Ljósmynd/Sparta Rotterdam

Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson er genginn til liðs við hollenska úrvalsdeildarfélagið Sparta Rotterdam.

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni en Nökkvi, sem er 25 ára gamall, kemur til félagsins frá St. Louis City í bandarísku MLS-deildinni.

Nökkvi Þeyr skrifaði undir lánssamning sem gildir út keppnistímabilið en félagið er svo með forkaupsrétt á sóknarmanninum að tímabili loknu.

Hann á að baki 39 leiki fyrir St. Louis City í MLS-deildinni þar sem hann hefur skorað fimm mörk en hann gekk til liðs við félagið frá Beerschot í Belgíu um mitt sumar árið 2023.

Nökkvi lék með KA frá 2019 til 2022 og skoraði 23 mörk í 65 leikjum liðsins í efstu deild. Hann varð markakóngur og kjörinn besti leikmaður deildarinnar árið 2022 en fór þó til Beerschot nokkru áður en tímabilinu lauk.

Sparta Rotterdam er með 13 stig í 16. og í þriðja neðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti, eftir átján umferðir. Tvö neðstu lið deildarinnar falla í B-deildina en liðið í 16. sæti mætir liði úr B-deildinni í umspili um sæti í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert