Sakar Mbappé um afbrýðisemi í garð Messis

Kylian Mbappé og Lionel Messi léku saman hjá París SG …
Kylian Mbappé og Lionel Messi léku saman hjá París SG í tvö tímabil. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur sakað Kylian Mbappé, sóknarmann Real Madrid, um afbrýðisemi í garð Lionels Messi þegar þremenningarnir voru liðsfélagar hjá París SG í Frakklandi.

Neymar, Mbappé og Messi voru liðsfélagar hjá París SG í tvö tímabil, frá 2021 til 2023 og varð liðið Frakklandsmeistari í bæði skiptin.

Neymar gekk til liðs við Al-Hilal í Sádi-Arabíu sumarið 2023 á meðan Messi samdi við Inter Miami í Bandaríkjunum. Mbappé lék svo með París SG tímabilið 2023-24 og gekk til liðs við Real Madrid síðasta sumar.

Borðuðu kvöldmat saman

„Ég talaði alltaf um Mbappé sem gulldrenginn,“ sagði Neymar í hlaðvarpsþætti sem er í umsjón Romarios, fyrrverandi landsliðmanns Brasilíu.

„Við spiluðum vel saman og ég sagði það alltaf að hann yrði einn besti leikmaður heims einn daginn. Ég reyndi mitt besta til að hjálpa honum og samband okkar var gott utan vallar. Hann kom oft heim til mín í mat.

Við áttum nokkur góð ár saman en hann varð afbrýðisamur þegar Messi kom til Parísar. Hann vildi ekki deilda mér. Eftir komu Messis rifumst við oftar og hegðun hans breyttist,“ sagði Neymar meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert