Elísabet Gunnarsdóttir var í dag ráðin þjálfari kvennaliðs Belgíu í knattspyrnu og skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning, til sumarsins 2027. Elísabet hafði verið í leit að nýju starfi um skeið.
Hún lét af störfum hjá Kristianstad í lok árs 2023 og var fljótlega orðuð við afskaplega spennandi starf, hjá kvennaliði Chelsea.
Fyrir ári síðan var Elísabet annað af tveimur nöfnum á blaði hjá enska stórliðinu. Chelsea ákvað að lokum að ráða Soniu Bompastor sem arftaka Emmu Hayes, sem tók við bandaríska kvennalandsliðinu, og viðurkennir Elísabet að það hafi verið svekkjandi.
„Þetta ferli með Chelsea gekk alveg á frekar lengi og ég vissi alveg að ég væri í síðustu tveimur þar. Þannig að auðvitað var það svekkjandi á þeim tímapunkti að fá ekki Chelsea. En ég gerði mér líka grein fyrir því að þetta væri eitt eftirsóknarverðasta starf í heimi.
Ég gerði mér alveg grein fyrir því að líkurnar á því væru ekkert allar mér í hag. Það er rosalega skrítið að vera svona án starfs. Maður er í ferli með einu félagi eins og hjá Chelsea, þá buðust mér önnur tækifæri sem ég varð kannski að segja nei við á þeim tíma af því ég vildi halda mér áfram í ferlinu með Chelsea.
Það er eitthvað þar sem maður hugsar kannski til baka: „Æ, ég hefði kannski átt að halda áfram þarna og ekki gefa þetta frá mér.“ En það þýðir ekkert að vera að horfa í spegilinn og skoða ef og hefði. Það kemur alltaf eitthvað annað upp,“ sagði hún í samtali við mbl.is.
Elísabet bætti því við að hún væri hæstánægð með að hafa tekið við Belgíu.
„Um leið og ég átti þessi samtöl við Belgíu og við ræddum þeirra markmið og hugmyndafræði út frá mínum fannst mér þetta smellpassa. Ég er ótrúlega ánægð með að hafa beðið fram að þessum tímapunkti.“