Finnst ég vera ungur gamall þjálfari

Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet Gunnarsdóttir var í dag ráðin þjálfari kvennaliðs Belgíu í knattspyrnu og skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning, til sumarsins 2027.

„Tilfinningin er frábær. Ég er mjög stolt og ánægð að fá tækifæri til þess að þjálfa landslið og það finnst mér vera mikill heiður. Svo finn ég fyrir mikilli tilhlökkun. Ég hlakka til að byrja og fá að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan,“ sagði Elísabet í samtali við mbl.is.

Hún hefur verið án starfs í rúmt ár eftir að Elísabet lét af störfum hjá Kristianstad undir lok ársins 2023, þar sem hún hafði þjálfað kvennaliðið um 15 ára skeið.

Hvernig hefur það verið fyrir þig að vera ekki í þjálfun í rúmt ár?

„Það er náttúrlega búið að vera stórfurðulegt. Þegar maður er búinn að vera í einhver 30 ár í röð að stýra liði, fara í gegnum undirbúningstímabil og spila 30-50 leiki á ári.

Það er mjög skrítið að vera síðan allt í einu að gera ekki neitt. En það er mjög kærkomið að komast aftur á skrið og fá að takast á við einhverjar áskoranir og vinna með fólki,“ sagði Elísabet.

Hefur ýmislegt komið upp

Spurð hvort hún hafi verið búin að fá mörg tilboð áður en Elísabet ákvað að þekkjast tilboð belgíska knattspyrnusambandsins sagði hún:

„Það hefur alveg ýmislegt komið upp. Svo var það þannig að það voru smá veikindi í fjölskyldunni í sumar sem gerðu að það að verkum að ég sá mér eiginlega ekkert fært að vera að taka við einhverju liði í vor og fram eftir sumri.

Þannig að ég ákvað í raun að bíða fram á haust þar til ég myndi fara að leita eitthvað aktíft að nýju starfi. Síðan ég fór að gera það hefur ýmislegt komið upp og ég verið í einhverjum viðtölum, verið að þreifa fyrir mér og fá tilfinningu fyrir því hvað ég vil gera.

Þetta eru pínu tímamót á ferlinum. Mér finnst ég vera ungur gamall þjálfari! Ég er búin að vera í þessu svo lengi að mér líður stundum eins og ég sé gömul en svo er ég kannski ekkert gömul. Svo er þetta mikilvægt skref upp á framtíðina.“

Elísabet er 48 ára gömul og hefur unnið við þjálfun um langt árabil. Áður en hún tók við Kristianstad þjálfaði hún Val í fimm ár, var aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins og þjálfari U21-árs liðsins í tvö ár auk þess að þjálfa kvennalið ÍBV sumarið 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert