Ítalski knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti mun ekki hætta sem þjálfari Real Madrid að yfirstandandi tímabili loknu.
Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi í dag en Ancelotti, sem er 65 ára gamall, er samningsbundinn félaginu út keppnistímabilið 2025-26.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hans undanfarna daga og hafa spænskir miðlar haldið því fram að hann muni stíga til hliðar að yfirstandandi tímabili loknu.
Ancelotti hefur stýrt Real Madrid samfleytt frá árinu 2021 en hann stýrði félaginu einnig frá 2013 til ársins 2015.
Hann hefur tvívegis gert Real Madrid að Spánarmeisturum, þrívegis að Evrópumeisturum og tvívegis að bikarmeisturum á tíma sínum á Spáni. Þá hefur félagið tvívegis orðið heimsmeistari félagsliða undir stjórn Ancelottis.