Knattspyrnumaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er í byrjunarliði franska liðsins Lille sem mætir Liverpool í 7. umferð Meistaradeildarinnar á Anfield í Liverpool klukkan 20:00 í kvöld.
Þetta er fyrsti byrjunarliðsleikur Skagamannsins í keppninni á tímabilinu en hann missti af fyrstu fjórum leikjum liðsins í Meistaradeildinni vegna meiðsla.
Hákon var fjarverandi gegn Sporting, Real Madrid, Atlético Madrid og Juventus en kom inn á sem varamaður gegn Bologna og Sturm Graz. Lille hefur unnið báða leikina sem Hákon hefur tekið þátt í en hann skoraði sigurmarkiið gegn Sturm Graz, 3:2.
Íslendingurinn hefur leikið 10 leiki í frönsku 1. deildinni á tímabilinu, skorað tvö mörk og lagt upp tvö til viðbótar. Alls hefur hann skorað fjögur mörk í öllum keppnum í síðustu átta leikjum Lille.
Lille er í 10. sæti Meistaradeildarinnar með 13 stig og í harðri baráttu um að komast beint í 16-liða úrslit keppninnar, þar sem átta efstu lið deildarinnar eiga sætið víst, en Liverpool er í efsta sætinu með 18 stig eða fullt hús stiga.
Liðin sem hafnaði í 9.-24. sæti deildarinnar fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitunum þar sem leikið verður heima og að heiman.