Arsenal hafði betur gegn Dinamo Zagreb, 3:0, í sjöundu og næstsíðustu umferð Meistaradeildar karla í fótbolta á Emirates-leikvanginum í London í kvöld.
Arsenal er í þriðja sæti af 36 liðum með 16 stig. Liðið er gott sem komið í sextán liða úrslit en efstu átta liðin fara beint þangað. Arsenal mætir Girona á Spáni eftir viku í áttundu og síðustu umferðinni.
Dinamo er hins vegar í 26. sæti með 8 stig og í miklum slag um að vera eitt þeirra 24 liða sem komast í útsláttarkeppnina. Króatarnir eiga eftir að mæta AC Milan á heimavelli í síðustu umferðinni.
Arsenal byrjaði leikinn virkilega vel en Declan Rice kom liðinu yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik. Þá gaf Gabriel Martinelli boltann fyrir á Kai Havertz sem tíaði boltann upp fyrir Rice sem smellti boltanum í netið af stuttu færi, 1:0.
Arsenal-liðið sótti meira það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en náði ekki að skora.
Á 66. mínútu tvöfaldaði Havertz forystu Arsenal-manna en þá stangaði hann glæsta fyrirgjöf Martinellis í netið.
Fyrirliðinn Martin Ödegaard bætti síðan við þriðja marki Arsenal í blálokin eftir sendingu frá Leandro Trossard.