Franska knattspyrnustjarnan Kylian Mbappé kveðst hafa náð botninum á ferli sínum þegar honum gekk illa hjá Real Madríd á fyrstu mánuðum sínum hjá félaginu.
Mbappé klúðraði hverju dauðafærinu á fætur öðru og þar á meðal tveimur vítaspyrnum en hefur að undanförnu fundið markaskóna og spilað betur.
„Ég tel þetta hafa verið andlegt vandamál og á þeim tímapunkti áttaði ég mig á því að ég þyrfti að leggja harðar að mér. Ég ofhugsaði hvernig ég ætti að framkvæma hlutina.
Hvort ég ætti að fara í svæði, hvort ég ætti að fara á svæði Vini eða Rodrygo. Þegar maður ofhugsar hlutina nær maður ekki að einbeita sér að leiknum. Það var í lagi með mig líkamlega og félagslega í hópnum en ég vissi að ég þyrfti að gera meira.
Þá var tímabært að breyta aðstæðunum. Ég gat ekki staðið mig neitt verr þannig að þegar maður nær botninum liggur leiðin einungis upp á við,“ sagði Mbappé á fréttamannafundi í gær.