Bandaríska knattspyrnukonan Naomi Girma hefur samþykkt að ganga til liðs við Chelsea, sem kaupir hana á metfé frá San Diego Wave.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að upphæðin sem Chelsea greiðir San Diego Wave sé hærri en 685.000 pundin, jafnvirði 119 milljóna íslenskra króna, sem Bay FC greiddi fyrir Racheal Kundananji í febrúar á síðasta ári.
Sky Sports greinir frá því að upphæðin nemi um 890.000 pundum, 155 milljónum króna.
Verður Girma, sem leikur í stöðu miðvarðar, því dýrasta knattspyrnukona frá upphafi. Hún er 24 ára gömul og mun skrifa undir langtímasamning við Chelsea.
Chelsea var í leit að miðverði eftir að Kadeisha Buchanan sleit krossband í hné og verður af þeim sökum lengi frá.