Nígeríski knattspyrnumaðurinn Maduka Okoye, markvörður Udinese í ítölsku A-deildinni, sætir nú rannsókn yfirvalda á Ítalíu vegna gruns um þátttöku í veðmálasvindli.
Sky Sport á Ítalíu greinir frá því að málið lúti að grunsamlegum fjölda veðmála í tengslum við gult spjald sem Okoye fékk fyrir að tefja undir lok leiks í 2:1-sigri Udinese á Lazio í A-deildinni þann 11. mars 2024.
Verði markvörðurinn fundinn sekur stendur hann frammi fyrir því að vera úrskurðaður í langt keppnisbann.
Udinese hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið en hefur afskráð Okoye úr leikmannahópi sínum fyrir síðari hluta tímabilsins, þó það gæti hafa komið til vegna úlnliðsmeiðsla sem hugsanlegt er að haldi honum frá keppni út tímabilið.
Lögfræðiteymi Okoyes hefur gefið það út að enginn grundvöllur sé fyrir ásökununum í garð skjólstæðings síns þar sem að engin sönnunargögn séu fyrir hendi.