Árið 2025 byrjaði svo sannarlega með látum hjá knattspyrnukonunni Ásdísi Karenu Halldórsdóttur en hún skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við spænska félagið Madrid CFF á dögunum.
Ásdís Karen, sem er 25 ára gömul, heyrði fyrst af áhuga spænska liðsins milli jóla og nýárs en hún kom til félagsins frá Lilleström í Noregi þar sem hún lék á síðustu leiktíð og skoraði fjögur mörk í 21 leik í úrvalsdeildinni.
Madrid CFF er í níunda sæti af sextán liðum í 1. deildinni á Spáni með 18 stig þegar fimmtán umferðir hafa verið leiknar. Hún hefur einnig leikið með Val og KR hér á landi og varð þrívegis Íslandsmeistari með Val.
Alls á hún að baki 139 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hún hefur skorað 30 mörk og þá á hún að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland.
„Þetta lítur allt saman mjög vel út og það hefur verið ansi mikið að gera hjá mér síðustu daga,“ sagði Ásdís í samtali við Morgunblaðið.
„Ég heyrði fyrst af áhuga Madrid milli jóla og nýárs og svo fljótlega eftir áramót var ég orðin nokkuð sannfærð um að ég væri á leiðinni til Spánar. Ég ætlaði mér alltaf að klára tímabilið í Noregi en umboðsmaðurinn minn var samt meðvitaður um það að ef það kæmi upp spennandi tilboð, þá væri ég til í að skoða það.
Ég var samningsbundin Lilleström út keppnistímabilið 2025 og forráðamenn Madridar þurftu því að borga upp samninginn minn í Noregi. Það tók smátíma að klára það því forráðamenn Lilleström voru ekkert á þeim buxunum að selja mig til að byrja með. Félögin komust hins vegar að samkomulagi sem hentaði öllum vel og þetta endaði vel fyrir alla aðila,“ sagði Ásdís.
Ásdís var tilbúin í næsta skref á sínum ferli en hún var í stóru hlutverki hjá Lilleström á síðustu leiktíð þegar liðið endaði í fjórða sæti deildarinnar.
„Spænska deildin er mjög sterk og mér fannst þetta vera skref upp á við. Ég hugsaði í raun bara af hverju ekki? Lilleström var í fjárhagsvandræðum á síðustu leiktíð og það tók sinn toll, jafnt innan sem utan vallar. Þessi fjárhagsvandræði eiga að vera úr sögunni núna en maður er samt einhvern veginn alltaf með þau á bak við eyrað líka.“
Viðtalið við Ásdísi Karen má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.