Landsliðskonan til Íslendingaliðsins

Alexandra Jóhannsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu.
Alexandra Jóhannsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur samið við sænska félagið Kristianstad um að leika með liðinu næstu tvö ár. Kemur Alexandra frá Fiorentina á Ítalíu, þar sem hún hafði leikið frá árinu 2022.

Alexandra verður þar með fjórði íslenski leikmaðurinn hjá Kristianstad en þar eru fyrir Hlín Eiríksdóttir, Guðný Árnadóttir og Katla Tryggvadóttir.

Miðjumaðurinn hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Fiorentina á yfirstandandi tímabili og hugsaði sér því til hreyfings.

Í tilkynningu frá Kristianstad er minnst á að Alexandra hafi æft með liðinu þegar hún var aðeins 16 ára gömul ásamt Sveindísi Jane Jónsdóttur og áðurnefndri Guðnýju.

Allar þrjár hafi því núna verið samningsbundnar félaginu á einhverjum tímapunkti.

Alexandra er 24 ára gömul og hefur leikið með Fiorentina frá árinu 2022 þegar hún kom þangað frá Eintracht Frankfurt í Þýskalandi þar sem hún var frá ársbyrjun 2021. Áður lék hún með Breiðabliki og Haukum auk þess að spila með Breiðabliki hluta tímabilsins 2022.

Hún á að baki 55 leiki með Fiorentina í ítölsku A-deildinni og skoraði þar níu mörk og þá lék hún 24 leiki með Eintracht í efstu deild Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert