Stjörnumaðurinn til Svíþjóðar - áttundi hjá GAIS

Róbert Frosti Þorkelsson samdi við GAIS.
Róbert Frosti Þorkelsson samdi við GAIS. Ljósmynd/GAIS

Sænska knattspyrnufélagið GAIS hefur komist að samkomulagi við Stjörnuna um kaup á Róberti Frosta Þorkelssyni. Skrifaði hann undir fimm ára samning í Gautaborg.

Róbert Frosti er 19 ára sóknartengiliður og kantmaður sem hefur verið í stóru hlutverki hjá Stjörnunni undanfarin tímabil þrátt fyrir ungan aldur.

Lék hann 50 leiki og skoraði þrjú mörk fyrir uppeldisfélagið í Bestu deildinni. Á Róbert Frosti 14 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

GAIS hafnaði í sjötta sæti í sænsku úrvalsdeildinni sem nýliði á síðasta tímabili.

Róbert Frosti verður áttundi Íslendingurinn sem leikur með liði GAIS sem var mikið Íslendingalið á árunum 2006 til 2016 en enginn íslenskur leikmaður hefur hins vegar spilað með Gautaborgarliðinu undanfarin átta ár.

Jóhann Birnir Guðmundsson lék með GAIS 2006 til 2008, spilaði 44 leiki í efstu deild og skoraði 3 mörk.

Eyjólfur Héðinsson lék með GAIS 2007 til 2010, spilaði 100 leiki í efstu deild og skoraði 12 mörk.

Hallgrímur Jónasson lék með GAIS 2009 til 2011, spilaði 35 leiki í efstu deild og skoraði eitt mark.

Guðjón Baldvinsson lék með GAIS 2009 og spilaði 5 leiki í efstu deild.

Guðmundur Reynir Gunnarsson lék með GAIS 2009 og spilaði 4 leiki í efstu deild.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson lék með GAIS 2014 og spilaði 16 leiki í B-deild.

Arnar Bragi Bergsson lék með GAIS 2015 og 2016, spilaði 24 leiki í B-deild og skoraði 3 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert