Svíinn Anthony Elanga hefur lýst yfir áhuga á að snúa aftur í sænska karlalandsliðið í fótbolta en Elanga hefur ekki spilað fyrir þjóð sína eftir að hann var rekinn úr verkefni í nóvember fyrir að mæta ekki í kvöldverð með liðinu.
Jon Dahl Tomasson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar, hefur ekki viljað tjá sig um málið eftir þessar fréttir.
Elanga, sem hefur farið á kostum í liði Nottingham Forest, var í viðtali við Viaplay á dögunum og bauð hann fram krafta sína á ný.
„Þetta er á milli mín og Jon en nú er ég hundrað prósent einbeittur á Nottingham. Ég hef byrjað tímabilið frábærlega og þegar landsliðið kemur þá verð ég til staðar ef þeir þurfa á mér að halda,“ sagði Elanga.
„Ég er alltaf opinn fyrir því að mæta aftur. Það er mikill heiður að vera fulltrúi landsliðsins en núna er ég að einbeita mér að Nottingham. Taktur og stöðugleiki er mikilvægur fyrir mér. Maður vill ekki fara í verkefni og fá svo ekki að spila. Þá verður erfiðara að mæta aftur og þurfa að byrja upp á nýtt,“ sagði Elanga að lokum.