Sérgio Conceicao, knattspyrnustjóri AC Milan, var brjálaður út í fyrirliða sinn Davide Calabria þrátt fyrir að liðið hafi unnið dramatískan endurkomusigur á Parma, 3:2, í ítölsku A-deildinni í dag.
Tijjani Reijnders og Samuel Chukwueze skoruðu báðir seint í leiknum eftir að Milan hafði lent 1:2 undir og tryggðu þannig Milan sigur.
Conceicao hljóp hins vegar inn á völlinn í leikslok og hóf að hrauna yfir Calabria. Virtist portúgalski stjórinn ætla að ráðast á Ítalann áður en aðrir leikmenn AC Milan skökkuðu leikinn og stíuðu þeim í sundur.
Eftir leikinn sagði Conceicao við fréttamenn: „Þegar adrenalínið gerir vart við sig á meðan leikjum stendur þarf maður stundum að sýna ástríðu í þessari íþrótt. Ég tel það vera jákvætt.
Þetta er í lagi mín vegna því þetta sneri að nokkru sem gerðist í leiknum. Eins og með börnin manns, þegar þau hegða sér illa verður maður að gera eitthvað í því.
Ég er beinskeyttur, leikmenn vita að við erum að treysta sambönd okkar á milli og það sást á andanum sem liðið sýndi í lokin.“
Calabria baðst hins vegar afstökunar.
„Svona hlutir geta satt að segja gerst á vellinum. Þetta var misskilningur á milli okkar, okkur var annt um niðurstöðu þessa leiks. Adrenalínið var ansi mikið og við fundum út úr þessu.
Þetta verður ekki í fyrsta né síðasta skiptið sem eitthvað þessu líkt gerist. Þetta er algengt í fótbolta.
Ég vil líka biðjast afsökunar því þetta er ekki fallegt. Það mikilvægasta í þessu er liðið og endurkoma okkar,“ sagði fyrirliðinn á fréttamannafundi.