Barcelona skoraði sjö

Fermín López átti stórleik fyrir Barcelona.
Fermín López átti stórleik fyrir Barcelona. AFP/Manaure Quintero

Barcelona fór hamförum er liðið kjöldró Valencia 7:1 í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Staðan í hálfleik var 5:0.

Barcelona er í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig, sjö stigum á eftir toppliði Real Madríd. Valencia er í miklum erfiðleikum í 20. sæti, fallsæti, með aðeins 16 stig.

Snemma var ljóst að stefndi í óefni fyrir gestina frá Valencia þar sem staðan var orðin 2:0 eftir aðeins átta mínútna leik.

Frenkie de Jong og Ferran Torres skoruðu þá. Raphinha bætti við þriðja markinu á 14. mínútu og Fermín López kom Börsungum í 4:0 eftir 24 mínútna leik.

López skoraði svo annað mark sitt og fimmta mark Barcelona í uppbótartíma.

Í síðari hálfleik minnkaði Hugo Duro muninn fyrir Valencia áður en Robert Lewandowski komst á blað hjá Barcelona og César Tarrega, leikmaður Valencia, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

López átti sannkallaðan stórleik því auk þess að skora tvö mörk lagði hann upp mörk Raphinha og Lewandowski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert