Róbert Orri Þorkelsson, fyrrverandi fyrirliði 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, er á leið til danska úrvalsdeildarfélagsins Sönderjyske.
Danski fjölmiðillinn Tipsbladet greinir frá þessu og segir að Róbert muni ganga frá samningum við Sönderjyske þegar gengið hafi verið frá síðustu formsatriðum en samkvæmt heimildum Dananna mun Róbert skrifa undir samning til ársins 2028 að lokinni læknisskoðun.
Róbert Orri er 22 ára gamall varnarmaður, uppalinn í Aftureldingu en lék síðan með Breiðabliki 2020 og 2021, alls sextán leiki í úrvalsdeildinni.
Hann fór á miðju tímabili 2021 til CF Montréal í Kanada og lék 21 leik með liðinu í bandarísku MLS-deildinni.
Róbert var lánaður til Kongsvinger í norsku B-deildinni allt tímabilið 2024, þar sem hann spilaði 21 leik í deildinni, en samningur hans við Montréal rann út áður en árinu lauk.
Róbert á að baki fjóra A-landsleiki og 17 leiki með 21-árs landsliðinu, þar sem hann var fyrirliði, og 23 leiki með yngri landsliðunum.
Sönderjyske er nýliði í dönsku úrvalsdeildinni og er í 10. sæti af 12 liðum þegar 17 umferðir hafa verið leiknar af 32.
Með liðinu leika þeir Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason en fjölmargir íslenskir knattspyrnumenn hafa leikið með Sönderjyske á undanförnum árum.