Óvenjulegt atvik átti sér stað í leik Heerenveen og Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Sittard lék þá með tólf leikmenn á vellinum í eina mínútu.
Atvikið átti sér stað á 88. mínútu þegar staðan var 2:1, Heerenveen í vil. Sittard gerði þá tvöfalda skiptingu þar sem Ryan Fosso og Jasper Dahlhaus fóru af velli. Nema hvað, Dahlhaus fór ekki af velli.
Robin van Persie, knattspyrnustjóri Heerenveen, benti dómarateymi leiksins á að Sittard væri með tólf leikmenn inni á vellinum og fór Dahlhaus loks af velli eftir að Sittard hafði spilað einum fleiri í tæpa mínútu.
Mínútu eftir það jafnaði Sittard metin í 2:2 og urðu það lokatölur. Van Persie var ekki á eitt sáttur með að jöfnunarmarkið hafi fengið að standa þar sem Sittard hafi verið með tólf leikmenn inni á vellinum í aðdraganda marksins, sem kom eftir hornspyrnu.
„Mér finnst það sem átti sér stað fyrir þetta mark mjög sérstakt. Fortuna Sittard var með tólf leikmenn inni á vellinum í eina mínútu áður en þeir fengu þetta innkast. Svo virðist vera sem það sé leyfilegt og mögulegt.
Maður getur ekki gert sér það í hugarlund. Að það sé einfaldlega leyft. Venjulega tala ég aldrei við dómarana og leyfi þeim alltaf að sinna sínu starfi en það má ekki vera að þeir spili með tólf menn. Það er óhugsandi. Því spurði ég fjórða dómarann: „Ættirðu ekki að gera eitthvað í þessu?“,“ sagði van Persie við fréttamenn eftir leik.
Spurður hvað hann hefði viljað að væri gert sagði van Persie: „Til dæmis að dæma þetta mark af. Það má ekki spila tólf á móti ellefu. Ég get ekki skilið það. Mér finnst þetta vera algert hneyksli.“