Höfnuðu tilboði frá Englandi í Njarðvíkinginn

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. mbl.is/Karítas

Forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Norrköping höfnuðu á dögunum tilboði frá Íslendingaliði Burton Albion í íslenska landsliðsmanninn Arnór Ingva Traustason.

Það er sænski miðillinn Fotbollskanalen sem greinir frá þessu en Arnór, sem er 31 árs gamall, hefur áður gefið það út að hann vilji reyna fyrir sér í sterkari deild en þeirri sænsku.

Burton lagði fram tilboð í leikmanninn í gær en félagið er í eigu fjárfesta frá Norðurlöndunum, þar á meðal sex Íslendinga.

Jón Daði Böðvarsson gekk til liðs við enska félagið þann 16. janúar en félagið er með 25 stig í 21. sæti ensku C-deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti.

Arnór Ingvi hefur leikið með Norrköping frá árinu 2022 en hann lék einnig með liðinu á árunum 2014 til 2016. Alls á hann að baki 139 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 36 mörk og lagt upp önnur 22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert