Hákon Arnar Haraldsson og liðsfélagar hans í Lille eru úr leik í frönsku bikarkeppninni eftir að hafa tapað fyrir Dunkerque eftir vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum í kvöld.
Lille er í fjórða sæti frönsku 1. deildarinnar en Dunkerque er í fjórða sæti næst efstu deildar. Um nágrannaslag var að ræða en bæði félög eru staðsett í norður Frakklandi.
Hákon Arnar var á sínum stað í byrjunarliði Lille og lék allan leikinn fyrir liðið, þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki á tímabilinu.
Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma eftir að Dunkerque jafnaði metin á sjöttu mínútu uppbótartíma.
Strax var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Dunkerque hafði betur, 5:4. Hákon Arnar klúðraði vítaspyrnu sinni er Ewen Jaoen í marki Dunkerque varði frá honum.
Jaoen reyndist svo hetja Dunkerque er hann skoraði sjálfur úr síðustu spyrnunni.