Norska knattspyrnufélagið Brann, þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari karlaliðsins, hefur ákveðið að yfirgefa samfélagsmiðilinn X.
„Brann hefur lengi velt því fyrir sér að yfirgefa vettvanginn. Miðillinn gerir fólki kleift að dreifa hatri, kynþáttafordómum og óritskoðuðum myndböndum af alvarlegum afbrotum eins og morðum og ofbeldi, og það gagnrýnilaust og óritskoðuðu frá nafnlausum aðgöngum.
Þetta er langt frá því að samræmast gildum félagsins og tilheyrir stafrænum heimi sem Brann vill ekki vera hluti af,“ sagði í tilkynningu sem Brann birti á heimasíðu sinni.
Þar kemur fram að fleiri félög í norsku úrvalsdeildinni, nú síðast Tromsö, hafi einnig ákveðið að segja skilið við X.
„Brann mun halda áfram með viðveru á samfélagsmiðlum. Á hvaða miðlum það verður er háð stöðugu mati. Samfélagsmiðlar munu enn gegna mikilvægu hlutverki í samskiptum Brann við stuðningsmenn sína og því að deila hlutum sem gerast hjá félaginu. En tími X er liðinn,“ sagði einnig í tilkynningunni.