Neyðarástand hjá Real Madríd

Varnarmenn Real Madríd, sem Carlo Ancelotti stýrir, hafa verið að …
Varnarmenn Real Madríd, sem Carlo Ancelotti stýrir, hafa verið að heltast úr lestinni. AFP/Damien Meyer

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, segir liðið glíma við neyðarástand eftir að tveir varnarmenn liðsins, David Alaba og Antonio Rüdiger, meiddust og verða frá keppni næstu tvær til þrjár vikur.

Rüdiger fór af velli eftir aðeins 15 mínútna leik í 1:0-tapi fyrir Espanyol í spænsku deildinni um síðustu helgi. Meiddist hann á læri. Alaba, sem nýverið sneri aftur eftir að hafa glímt við meiðsli, er sömuleiðis meiddur á læri.

Real Madríd á fyrir höndum mikilvæga leiki á næstunni; gegn Atlético Madríd í deildinni um næstu helgi og tvo leiki gegn Manchester City í umspili Meistaradeildar Evrópu um sæti í 16-liða úrslitum stuttu síðar.

„Þetta er neyðarástand sem við verðum að glíma við. Það eru smávægileg vandamál sem fresta endurkomu Alaba um 15 til 20 daga og það sama má segja um Rüdiger.

Við munum spjara okkur með þá leikmenn sem við höfum til umráða. Jacobo [Ramón], sem hefur verið meiddur í langan tíma, er að snúa aftur og hann getur líka lagt sitt af mörkum,“ sagði Ancelotti á fréttamannafundi í gær.

Fyrir eru bæði Éder Militao og Dani Carvajal úr leik allt tímabilið vegna krossbandsslita í hné.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert