Í undanúrslit eftir ótrúlega endurkomu

Leikmaðurinn Florian Wirtz fagnar með stuðningsmönnum Leverkusen eftir sigurinn glæsilega …
Leikmaðurinn Florian Wirtz fagnar með stuðningsmönnum Leverkusen eftir sigurinn glæsilega í gærkvöldi. AFP/Ina Fassbender

Ríkjandi bikarmeistarar Bayer Leverkusen lentu í miklum vandræðum þegar Köln kom í heimsókn í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í gærkvöldi. Leverkusen vann að lokum 3:2 eftir framlengingu.

Köln, sem er í öðru sæti í þýsku B-deildinni á meðan Þýskalandsmeistarar Leverkusen eru í öðru sæti efstu deildar, komst í 0:2 og útlitið þá orðið dökkt fyrir heimamenn.

Patrik Schick minnkaði muninn fyrir Leverkusen eftir rúmlega klukkutíma leik og þegar öll nótt virtist úti fyrir liðið skoraði hann aftur á sjöttu mínútu uppbótartíma.

Með því tryggði Schick Leverkusen framlengingu. Á áttundu mínútu hennar var það svo Victor Boniface sem skoraði sigurmark Leverkusen, sem færist þar með nær því að verja bikarmeistaratitil sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert