Fótboltamaðurinn Birkir Már Sævarsson mun leika með sænska D-deildarfélaginu Nacka á komandi keppnistímabili.
Það er sænski X-aðgangurinn Kanalplan 1915 sem greinir frá þessu en sami aðgangur greindi frá því í lok janúarmánaðar að Birkir væri að æfa með félaginu.
Birkir, sem er fertugur, hafði sjálfur gefið það út að tímabilið 2024 yrði hans síðasta á ferlinum en hann lék þá 25 leiki með Val í Bestu deildinni og skoraði í þeim eitt mark.
Birkir er búsettur í Svíþjóð í dag ásamt fjölskyldu sinni en tímabilið í sænsku D-deildinni hefst þann 28. mars. Nacka er frá Hammarby-svæðinu í Stokkhólmi og er nýliði í deildinni. Birkir lék með Hammarby á árunum 2015 til 2017.
„Nacka mun á morgun tilkynna um stærstu félagaskiptin í D-deildinni,“ segir í færslu Kanalplan 1915 á X.
Uppfært kl. 16.47:
Nacka hefur staðfest að Birkir Már muni leika með liðinu keppnistímabilið 2025.
“Känslan” är att Nacka FC imorgon kommer att presentera årets största värvning i div 2… 💣 https://t.co/00lTchQ019 pic.twitter.com/TmrRMS3ydk
— Kanalplan 1915 (@Kanalplan1915) February 10, 2025