Fóru í fýlu og gengu af velli

Álvaro Morata fagnar marki sínu í gær.
Álvaro Morata fagnar marki sínu í gær. Ljósmynd/Galatasaray

Leikmenn tyrkneska liðsins Adana Demirspor gengu af velli eftir um það bil 30 mínútna leik þegar liðið mætti Galatasaray á útivelli í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Var staðan 1:0 fyrir Galatasaray þegar ákvörðunin var tekin en Álvaro Morata skoraði markið úr víti.

Murat Sancak, forseti Adana Demirspor, tók ákvörðunina til að mótmæla vítaspyrnudómnum. Kom hann skilaboðum til Mustafa Avci þjálfara liðsins sem kallaði leikmenn af velli.

Tyrkneska knattspyrnusambandið ákveður næstu skref en ljóst er að Adana Demirspor á allavega yfir höfði sér stóra sekt og verður Galatasaray væntanlega úrskurðaður sigur í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert