Krossbandaslit eru einhver verstu meiðsli sem íþróttamenn verða fyrir og óhætt er að segja að portúgalska knattspyrnuliðið Benfica hafi orðið fyrir tvöföldu áfalli á laugardaginn.
Í leik liðsins gegn Moreirense í portúgölsku 1. deildinni voru tveir leikmenn Benfica, Alexander Bah frá Danmörku og Manu Silva, bornir meiddir af velli með þriggja mínútna millibili.
Síðan var staðfest að báðir hefðu þeir slitið krossband í vinstra hné.
Þeir spila væntanlega ekki aftur fyrr en í fyrsta lagi seint á þessu ári því vanalega eru menn átta til níu mánuði að jafna sig af krossbandsslitum.