Real Madríd vann ótrúlegan útisigur á Manchester City í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í Manchester í kvöld, 3:2. Jude Bellingham tryggði Real sigurinn með marki í uppbótartíma.
Real byrjaði af krafti og Frakkarnir Kylian Mbappé og Ferland Mendy fengu góð færi til að skora fyrsta markið snemma leiks.
Ederson í marki City varði hins vegar frá Mbappé og City-menn björguðu á línu þegar Mendy var í úrvalsfæri í teignum.
City refsaði stuttu seinna því Erling Haaland skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu er hann lagði boltann í fjærhornið eftir undirbúning hjá Jack Grealish og Joskvo Gvardiol.
Real fékk nokkur færi til að jafna metin í fyrri hálfleik. Vinícius Júnior skaut í slána á 25. mínútu, Dani Ceballos skaut rétt yfir stuttu seinna og Mbappé skaut yfir þegar hann var frír í góðu færi í teignum.
Hinum megin átti Phil Foden gott skot sem Thibaut Courtois í marki Real varði vel og Manuel Akanji skallaði í slána eftir horn. Þrátt fyrir fín færi beggja liða var ekki meira skorað og staðan í leikhléi því 1:0.
Þannig var hún fram að 60. mínútu þegar Kylian Mbappé jafnaði metin eftir sending inn í teiginn frá Dani Ceballos.
Ceballos gerði sig sekan um mistök á 80. mínútu er hann braut á Phil Foden innan teigs og City fékk víti sem Erling Haaland skoraði af öryggi úr, 2:1.
Brahim Diaz jafnaði sex mínútum síðar, mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður, er hann fylgdi á eftir í kjölfar þess að Ederson varði frá Vinicíus.
Stefndi allt í jafntefli þegar Bellingham skoraði sigurmarkið með því að pota boltanum inn fyrir marklínuna eftir að Vinicíus slapp einn í gegn og lyfti boltanum yfir Ederson og í áttina að enska miðjumanninum.
Urðu mörkin ekki fleiri og er Real í afar góðum málum fyrir seinni leikinn í Madríd eftir viku.