Knattspyrnumaðurinn Vitaliy Mykolenko, leikmaður enska liðsins Everton, byrjar alla daga á að hringja í foreldra sína í Úkraínu til að athuga hvort þeir séu á lífi.
Úkraínski landsliðsmaðurinn býr í Liverpool á meðan foreldrarnir eru enn búsettir í Úkraínu í nágrenni við höfuðborgina Kænugarð.
Þar sem innrás Rússa er enn í fullum gangi vill varnarmaðurinn ganga úr skugga um að foreldrarnir séu heilu og höldnu.
„Ég spyr alltaf hvort það sé í lagi með þau. Stundum er þetta erfitt og þau geta ekki sofið og stundum er allt í lagi. Þetta er erfitt fyrir mig og enn erfiðara fyrir þau.
Þau vita ekki hvað gerist næst því enn er verið að varpa sprengjum. Vonandi lýkur þessu einn daginn,“ sagði hann við Daily Mail.