Ronaldo samþykkir tilboðið

Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum Al-Nassr.
Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum Al-Nassr. AFP/Fayez Nureldine

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo hefur samþykkt nýtt samningstilboð Al-Nassr í Sádi-Arabíu og er hann nú samningsbundinn félaginu út árið 2026.

AFP greinir frá og segir að félagið muni staðfesta tíðindin á næstu dögum. Ronaldo, sem er nýorðinn fertugur, hefur skorað 82 mörk í 90 leikjum með Al-Nassr síðan hann kom til félagsins í janúar 2023.

Ronaldo hefur áður gefið það út að hann vilji ljúka ferlinum hjá Al-Nassr, eftir 2-3 ár, en gamli samningurinn átti að renna út í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert