Spænska knattspyrnufélagið Espanyol hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að það fordæmi hegðun Mapi León, leikmanns Barcelona, eftir leik liðanna í efstu deild Spánar um helgina.
Samkvæmt yfirlýsingunni snerti León klof Danielu Caracas á meðan þær voru í baráttu í teignum að bíða eftir hornspyrnu. León neitaði sjálfs sök í yfirlýsingu sem Barcelona sendi frá sér.
„Hún snerti mig viljandi fyrst og ég svaraði með því að snerta á henni fótinn og spyrja hvað sé í gangi. Ég snerti ekki klofið á henni og ég hef engan áhuga á því. Þetta var bara hluti af leiknum,“ er haft eftir León í yfirlýsingunni.
Espanyol sér málið allt öðrum augum og vonar að málið verði „tekið eins alvarlega og það á skilið“. Félagið muni standa við bakið á Caracas hafi hún áhuga á að fara með málið lengra.