Sænska 1. deildin í fótbolta hófst í dag með leik Djurgarden og Malmö þar sem Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson var í byrjunarliði Malmö. Leiknum lauk með sigri Malmö, 1:0.
Það var Jens Stryger Larsen sem skoraði eina mark leiksins djúpt í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Arnór lék fyrstu 61 mínútuna og nældi sér í gult spjald undir lok fyrri hálfleiks. Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Malmö í dag.
Mikael Egill Ellertsson spilaði 67 mínútur fyrir Venezia þegar liðið tapaði 1:0 fyrir Bologna í ítölsku A-deildinni í dag.
Riccardo Orsolini reyndist hetja gestanna í Bologna en hann skoraði eina mark leiksins á 49. mínútu.
Bjarki Steinn Bjarkason sat allan tímann á varamannabekk Venezia en Andri Fannar Baldursson var ekki í leikmannahópi Bologna í dag.
Eftir leikinn er Venezia í 19. sæti deildarinnar með 20 stig, fimm stigum frá öruggu sæti. Bologna er hinsvegar í 4. sæti deildarinnar með 56 stig og er í hörkubaráttu um að enda í Meistaradeildarsæti.