ÞAÐ ER örugglega ævintýri líkast að vera KR-ingur um þessar mundir. Fyrir um einni og hálfri viku tryggði knattspyrnulið félagsins í karlaflokki sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 31 ár. Braust þá út gífurlegur fögnuður. Á laugardag höfðu félagsmenn og áhangendur aftur ríka ástæðu til að fagna, því þá var KR-ingum afhentur Íslandsbikarinn, sigurlaunin á Íslandsmótinu 1999, árið sem álögum var létt af liðinu. Þormóður Egilsson, fyrirliði KR, tók við bikarnum eftir að lið hans hafði borið sigurorð af Keflvíkingum í Frostaskjóli, 3:2. Það var þá sem gamlir menn grétu, er þeir sáu hvar Þormóður, sem leikið hefur með meistaraflokki KR frá 1987 og aflað sér ómældrar virðingar stuðningsmanna með tryggð sinni við félagið, stóð álengdar á pallinum og leit á bikarinn. Spennan magnaðist er Þormóður tók skrefin í átt að verðlaunagripnum og geðshræring greip um sig. Til dæmis streymdu tárin niður kynnarnar á rosknum manni í stúkunni er þetta gerðist. Loks kom Þormóður að bikarnum og tók við honum úr hendi Eggerts Magnússonar, formanni Knattspyrnusambands Íslands. Loksins fékk hann að handleika þessi eftirsóttustu sigurlaun íslenskra knattspyrnumanna. Þormóður og félagar hans í röndóttu búningunum hafa verið grátlega nærri því að upplifa þessa stund áður. Árið 1996 stóð bikarinn skammt utan Akranesvallar er Skagamenn hrifsuðu af þeim titilinn í hreinum úrslitaleik. Það sama gerðist í Frostaskjóli í fyrra, þegar Eyjamenn komu, sáu og sigruðu. Vesturbæingar hafa því upplifað erfiðar stundir, en þær féllu allar í gleymsku í trylltum fögnuði þeirra á laugardag. Þá loks áttuðu margir KR-ingar sig á því að liðið hefði orðið Íslandsmeistari. Sönnunin var þarna á vellinum, þar sem Þormóður stóð og hóf bikarinn á loft frammi fyrir dyggum stuðningsmönnum, sem hylltu fyrirliðann og fögnuðu mest er nafn hans heyrðist í hátalarakerfinu á KR-vellinum, þegar allir leikmenn meistaraflokks og aðstandendur liðsins voru kynntir.
Flugeldum var skotið upp og söngvar kyrjaðir. Þá ber fyrst að nefna lag Bubba Morthens. Í því segir m.a.: "Titillinn er okkar í ár." Þar kom að því að spádómur tónlistarmannsins rættist. Áhorfendur fóru hvergi uns leikmenn KR höfðu hlaupið með bikarinn í hringi og leyft stuðningmönnum sínum að koma við hann. Þannig létu þeir í ljós þakklæti sitt í þeirra garð. Þeir voru sem tólfti maðurinn á vellinum, sagði Sigursteinn Gíslason, miðvallarleikmaður KR, í samtali við Morgunblaðið um þarsíðustu helgi. Sigursteinn lék ekki með KR á laugardag. Hann var einn þeirra sem hvíldu fyrir bikarúrslitaleikinn við Skagamenn á Laugardalsvelli nk. sunnudag. Sömu sögu var að segja af Bjarka Gunnlaugssyni, David Winnie, Þórhalli Hinrikssyni og Sigþóri Júlíussyni. Þá var Kristján Finnbogason markvörður á varamannabekknum, en Gunnleifur Gunnleifsson stóð á milli stanganna í stað hans. Þrátt fyrir það lagði KR Keflavík að velli, 3:2, og lauk þannig Íslandsmótinu með 45 stig - fjórtán sigra, þrjú jafntefli og eitt tap. Vesturbæingar voru mun sterkari framan af í leiknum við Keflvíkinga og gerðu tvö fyrstu mörkin. Einar Þór Daníelsson gerði það fyrsta eftir sjö mínútna leik af stuttu færi eftir snögga sókn heimamanna. En síðan kom hápunktur leiksins, ef lok hans og fögnuðurinn í kjölfarið eru undanskilin, þegar Arnar Jón Sigurgeirsson skoraði stórfenglegt mark með viðstöðulausu skoti á lofti, utan vítateigs. Boltinn fór rakleiðis í marknetið, efst vinstra megin - og Bjarki Guðmundsson, markvörður Keflvíkinga, vissi mætavel að við slíkum skotum er ekkert hægt að segja. Í síðari hálfleik slógu hinir röndóttu slöku við, biðu þess væntanlega að fá að taka við bikarnum. Keflvíkingar gengu á lagið og Þórarinn Kristjánsson minnkaði muninn í 2:1 tíu mínútum eftir leikhlé. Stuðningsmenn KR kipptu sér lítið upp við þetta, en af skrafi þeirra í stúkunni mátti merkja að sigur í leiknum væri öllu meira viðeigandi og skemmtilegri við þetta tækifæri. Þess vegna glöddust þeir innilega þegar Árni Ingi Pjetursson, sem fær ekki oft að spreyta sig með liðinu, innsiglaði sigur meistaranna með marki þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Kristján Brooks minnkaði síðan muninn aftur undir lok leiksins með góðu marki. En sigurinn var KR-inga. Titillinn er þeirra, og þeir eru sannarlega vel að honum komnir. Edwin Rögnvaldsson skrifar