Bandaríkjamenn unnu Ryderbikarinn í golfi

Justin Leonard fagnar púttinu sem tryggði Bandaríkjamönnum sigur.
Justin Leonard fagnar púttinu sem tryggði Bandaríkjamönnum sigur. AP

Bandaríkjamenn yfirspiluðu Evrópubúa á síðasta degi Ryderbikarkeppninnar í golfi og tryggðu sér bikarinn áður en öllum leikjunum var lokið. Fyrir daginn í dag höfðu Evrópubúar 4 vinninga forskot en Bandaríkjamenn enduðu með 14,5 vinninga gegn 13,5 vinningum Evrópubúa. Það var Justin Leonard sem var hetja bandaríska liðsins en hann setti niður tvö löng pútt á 15. og 17. holu.

Í dag var leikinn einmenningur þar sem 12 menn kepptu í hvoru liði. Fyrstu sjö leikirnir tóku ekki langan tíma og unnu Bandaríkjamenn öruggan sigur í þeim öllum. Tom Lehman vann Lee Westwood en hann hafði þriggja holu forustu þegar tvær voru eftir, Hal Sutton vann Darren Clarke 4 og 2; Phil Mickelson vann Jarmo Sandelin 4 og 3; Davis Love III yfirspilaði Jean van de Velde 6 og 5; David Duval burstaði einnig Jesper Parnevik 5 og 4; Tiger Woods vann Andrew Coltart 3 and 2 og Steve Pate vann Miguel Angel Jimenéz, 2 og 1. Þegar hér var komið sögu höfðu Bandaríkjamenn fengið 13 vinninga gegn 10 vinningum Evrópubúa, sem þurftu 4 vinninga í dag til að tryggja sér Ryderbikarinn. Fyrsti sigur Evrópu kom loks í 8. viðureigninni þegar Padraig Harrington vann Mark O´Meara á síðustu holunni. Jim Furyk vann síðan Sergio Garcia 4 og 3 og Justin Leonard tryggði Bandaríkjamönnunum Ryderbikarinn með löngu pútti á 17. holu og komst einni holu yfir gegn José Maria Olazábal. Þar með voru Bandaríkjamenn öruggir með 8,5 vinninga í dag og sigurinn í heild.Olazábal náði síðan að jafna í viðureigninni við Leonard í síðustu holunni. Colin Montgomerie vann síðan Payne Stewart með 1 holu og Paul Lawrie vann Jeff Maggert 4 og 3. Lokastaðan var því 14,5-13,5 fyrir Bandaríkjamenn. Það hefur aldrei gerst áður í sögu Ryderbikarsins að lið hafi unnið upp 4 vinninga forskot á síðasta degi en frammistaða Bandaríkjamanna í dag var hreint frábær og flest gekk þeim vil, þó einkum púttin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert