Yfirburðasigur Jóns Arnars

Jón Arnar lendir í langstökksgryfjunni.
Jón Arnar lendir í langstökksgryfjunni. Morgunblaðið/Sverrir

Jón Arnar Magnússon vann yfirburðasigur í þríþrautarkeppninni á stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll í kvöld. Hann sigraði í langstökkinu með 7,82 metra, Roman Sebrle varð annar, stökk 7,46 metra og Tom Erik Olsson þriðji með 7,27 metra. Jón Arnar fékk 2.864 stig fyrir greinarnar þrjár en Roman Sebrle varð í öðru sæti með 2.703 stig og Ólafur Guðmundsson fékk 2.540 stig og hafnaði í þriðja sæti.

Einar Karl Hjartarson hafnaði í öðru sæti í hástökki á frjálsíþróttamótinu í Laugardalshöll en þetta var jafnframt síðasta grein mótsins. Hann stökk hæst 2,21 metra en átti þrjár tilraunir við 2,25 sem allar mistókust. Írinn Brendan Reilly jafnaði sinn besta árangur innanhúss er hann fór yfir 2,25 metra en hann á best 2,32 metra utanhúss. Vala Flosadóttir felldi 4,50 metra þrívegis líkt og Daniela Bartova í stangarstökkinu á frjálsíþróttamótinu í Laugardalshöll. Hefði Vala farið yfir hefði það þýtt nýtt Íslands- og Norðurlandamet. Sigurinn fellur því til Bartovu en hún fór yfir 4,38 metra í fyrstu tilraun en Vala þufti til þess tvær tilraunir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert