Afturelding varði deildarmeistaratitilinn

Afturelding tryggði sér deildarmeistaratitilinn annað árið í röð er liðið lagði Fram, 23:21 í uppgjöri tveggja bestu liða landsins um þessar mundir að Varmá á sunnudag. Þetta er í þriðja sinn á sl. fjórum árum sem Afturelding verður deildarmeistari, þar af annað árið í röð undir stjórn Skúla Gunnsteinssonar, þjálfara. Tapið þýðir hins vegar fyrir Fram að nú tekur við harður slagur hjá liðinu við að tryggja sér annað sæti í deildinni í keppni við KA, eins og staða mála er nú þegar einungis tvær umferðir eru eftir.

Eins og oft áður á leiktíðinni var það sterk vörn Mosfellinga og traust markvarsla Bergsveins Bergsveinssonar sem lagði grunninn að sigrinum á ákveðnum leikmönnum Fram, sem lögðu sig alla í leikinn. Þá fögnuðu heimamenn einnig endurkomu Bjarka Sigurðssonar í lið Aftureldingar, en hann hefur nær ekkert verið með síðan fyrir tveggja mánaða vetrarleyfið.

Í leikhléi munaði einu marki á liðunum, 11:10, heimamönnum í vil.

Afturelding hóf leikinn í sókn gegn 5-1 vörn Fram-liðsins þar sem Björgvin Björgvinsson lék fremstur og reyndi eftir megni að slá Savukynas Gintaras út af laginu. Það tókst nú ekki betur en svo að Gintaras skoraði fyrsta mark leiksins. Að vanda lék UMFA 6-0 vörn frá upphafi til enda með örlitlum undantekningum. Sama var með Fram-liðið, það hélt sig nærri því við sömu vörn frá upphafi til enda.

Greinilegt var að Fram ætlaði að koma Aftureldingu á óvart með því að byrja með Vilhelm Sigurðsson í hlutverki leikstjórnanda og nafna hans Bergsveinsson í skyttuhlutverki hægra megin. Þessi uppstilling lánaðist hins vegar ekki sem skyldi og fljótlega var Guðmundur Helgi Pálsson kominn í stað Vilhelms Sigurðssonar og Fram-liðið farið að leika 4-2 í sókninni, þ.e. Guðmundur fór inn í línuhlutverkið með Róberti Gunnarssyni og fjórir leikmenn létu knöttinn ganga fyrir utan. Þá kom um líkt leyti Robertas Pauozoulis til sögunnar í stað Vilhelms Bergsveinssonar. Þannig var Fram-liðið mun öflugra og mætti mótspyrnu Aftureldingar af fullum þunga, enda þráðu bæði lið sigur.

Varnir beggja liða voru sterkar í fyrri hálfleik og markverðirnir, Bergsveinn hjá UMFA og Sebastian Alexandersson í marki Fram voru með á nótunum. Mikið mæddi á Gintaras og Gaulkaskas Gintas í sóknarleik UMFA en þegar tæpar sex mínútur voru til leikhlés kom Bjarki til sögunnar og færðist þá meiri ógn yfir sóknarleik heimamanna.

Annars þróaðist leikurinn í fyrri hálfleik eins við mátti búast. Það var nærri jafnt á öllum tölum, en frumkvæðið var frekar hjá heimamönnum sem fjórum sinnum náðu tveggja marka forskoti, en meiri varð munurinn aldrei. Fram jafnaði jafnharðan og úr varð hörkuleikur tveggja skemmtilegra liða, leikur sem var heiðarlega leikinn þrátt fyrir nokkur átök, enda ekki að undra því deildarmeistaratitilinn var í húfi. Staðan í leikhléi var 11:10, UMFA í vil.

Í síðari hálfleik hélt sama baráttan áfram. Liðin léku líkt og í þeim fyrri og svo virtist sem Fram-liðið hefði komið aðeins sprækara til leiks. Það náði forystu 13:12, og síðar 16:15 og 17:16. Þá fóru veikleikar Fram að gera vart við sig, UMFA lék af þolinmæði í sókninni eftir nokkurn flumbrugang á kafla. Með bættum sóknarleik var komið í veg fyrir hraðaupphlaup Fram og þar með helsta vopn þess gert óvirkt. Sebastian markvörður komst heldur ekki á sama skrið í síðari hálfleik og í þeim fyrri og munar um minna.

Ákveðin kaflaskipti urðu í leiknum þegar Oleg Titiov var rekinn af leikvelli í 2 mínútur þegar þegar 10,18 mínútur voru eftir og Afturelding var marki yfir. Þegar Framarar voru með fullskipað lið að nýju hafði UMFA lánast að bæta við tveimur mörkum og ná þriggja marka forskoti, 21:18. Slíkt forskot missti leikreynt lið Mosfellinga ekki niður. Fram minnkaði muninn í eitt mark, 21:20, en lengra komst það ekki og heimamenn juku kraftinn á lokakaflanum.

Sem fyrr segir var sterk vörn og framúrskarandi frammistaða Bergsveins í markinu aðal Mosfellinga. Vörnin er lítt árennileg með Alexei Trúfan, Gintas, Einar Gunnar Sigurðsson og Magnús Má Þórðarson, allt hávaxna og sterka leikmenn og Bergsvein í feiknastuði á bak við. Liðið lék vel sem heild bæði í vörn og sókn, þótt ekki megi gleyma góðum leik Gintaras í sókninni. Hann er maður sem aldrei má líta af, hann hefur fjölbreyttan og skemmtilegan skotstíl og einstakt auga fyrir sendingum á línuna í horninu. Þá gerði hann sjö mörk, hvert öðru fallegra.

Lengst af leik virtist sem Fram væri heldur skrefinu á eftir, vantaði meiri trú og vilja. Sterkir leikmenn, s.s. Björgvin Þór Björgvinsson og Njörður Árnason voru lítt áberandi í sókninni, Njörður þó sýnu minna en Björgvin. Gunnar Berg átti góðar rispur og Pauzoulis byrjaði vel, en þegar á leið hafði Bergsveinn náð á honum taki.

Ívar Benediktsson skrifar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka