Baldvin Björgvinsson og áhöfn á íslensku skútunni BESTA voru í morgun með forystu í alþjóðlegu kappsiglingakeppninni frá Frakklandi til Íslands, en þá var skútan 27 sjómílum á undan frönsku skútunni Gravlinga. Fyrir tveimur dögum var BESTA 130 sjómílum á eftir Gravlinga, sem hafði þá forystu. Síðustu daga hefur íslenska áhöfnin unnið sig upp úr tíunda sæti í það fyrsta. BESTA er nú komin inn fyrir íslensku lögsöguna og á um 120 sjómílur ófarnar að Reykjanesi.
Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk áhöfn tekur þátt í úthafskeppni. Í áhöfninni eru auk Baldvins, Arnþór Ragnarsson, Áskell Fannberg, Emil Pétursson, Sigurður Óli Guðnason, Jökull M. Pétursson, Gunnar Geir Halldórsson, Trausti Ævarsson, Böðvar Friðriksson, Linda Björk Ólafsdóttir og Ingvar Þórisson. Staðsetning BESTA var í morgun klukkan tíu: 61.59´28 N 022.27´84 W. Heimasíða Besta