Besta siglir til sigurs - væntanleg til Reykjavíkur í hádeginu

Besta er með 40 sjómílna forystu á næstu skútu og …

Besta er með 40 sjómílna forystu á næstu skútu og er væntanleg til Reykjavíkur í hádeginu.
mbl.is

Íslenska skútan Besta er enn fyrst í alþjóða siglingakeppninni frá Frakklandi til Íslands. Hún kom fyrir Garðskaga klukkan 7:50 í morgun og áætlar að koma til Reykjavíkur um hádegið. Hún ætti að vera nokkuð örugg með sigur á þessum legg því hún er um 40 sjómílum á undan næstu skútu sem heitir Grav´ling. Þriðja skútan í keppninni er Ecole Navale.

Mastrið á Bestu er 26 metrar og ætti því að sjást vel frá landi, frá Reykjanesi, Reykjanesbraut, Keflavík, Álftanesi, Gróttu, Reykjavík og eflaust víðar. Sjólínan á Bestu er 19,98 metrar, en fáar skútur af þessari stærð hafa komið til hafnar í Reykjavík, kjölur skútunnar ristir 3,60 metra. Fánar Íslands og Bretagne-skaga blakta á stjórnborða á Bestu. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk áhöfn tekur þátt í úthafssiglingakeppni af þessari stærðargráðu. Einn tvíbolungur er á leiðinni yfir hafið, Magnolia III. Skútan Mariala varð að snúa við til Írlands með brotið stýri er hún var komin út á Atlantshafið, stýrið brotnaði á krappri öldu er stýrimaður kastaðist á það, ölduhæðin náði á tímabili 6-8 metrum. Keppnin í ár er liður í dagskrá Reykjavíkur - Menningarborgar Evrópu árið 2000. Til landsins kemur mikill fjöldi fólks og aldrei áður hefur jafn stór kappsiglingafloti komið til landsins. Rætur keppninnar má rekja til frönsku sjómannanna er veiddu við Íslandsstrendur á seglskipum, en kappsiglingaskúturnar sem nú eru að koma til landsins eru tákn um nútíma hraða og tækni. Áætlanir gera ráð fyrir að ræst verði til baka frá Reykjavík til Paimpol 5. júlí nk., en það fer þó eftir því hvenær síðustu bátar koma til landsins. Baldvin Björgvinsson er skipstjóri á Bestu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert