Seglskútan BESTA varð önnur fyrir Reykjanes í alþjóðlegu siglingakeppninnni frá Reykjavík til Paimpol í Frakklandi nú í kvöld. Mikill slagur var á leiðinni fyrir nesið á milli Bronk og BESTA, en íslenska skútan hafði betur eftir að Bronk þurfti að venda til að ná fyrir nesið en því náði áhöfn BESTA að komast hjá. Fyrir þetta sigldu skúturnar nánast hlið við hlið.
Nú er BESTA farinn að slá undan vindi og hætt að sjá Bronk. Grav'lina, fyrsta skútan í þessum hluta keppninnar, sést þó ekki frá BESTA, en markmiðið er innan seilingar. Stefna hefur verið sett á Írland, 180 gráður á kompás, segir í fréttatilkynningu frá áhöfninni. Veðurútlit er gott og vindur gæti skilað henni vel áfram þegar fram á morgundaginn líður. Nú er siglt með órifað stórsegl sem þýðir að seglið er alveg uppi. Verið er að elda beikon og egg en fyrr í dag voru borðaðar pylsur, brauð og fleira íslenskt góðgæti. Lýsi er meira að segja um borð, segir í tilkynningunni.