Lærlingarnir lögðu þjálfarana í fyrsta Íslandsmótinu í krikketi

Vignir Sveinsson, Glaumi, í fullum skrúða, tilbúinn að slá boltann. …
Vignir Sveinsson, Glaumi, í fullum skrúða, tilbúinn að slá boltann. Líklega hefur hann hitt, því liðið frá Stykkishólmi vann leikinn. mbl.is/Gunnlaugur Árnason

Krikket hefur ekki verið mikið stunduð á Íslandi en íþróttin á mestu fylgi að fagna innan breska samveldisins. Um nýliðna helgi var þó ráðist í að halda Íslandsmót í íþróttinni í fyrsta sinn.

Aðeins tvö lið mættu til leiks og var því úrslitaleikur mótsins sá eini. Hann fór fram á Stykkishólmi síðastliðinn laugardag. Liðin tvö voru Kylfan, Krikketklúbbur Reykjavíkur (KKKR) og heimamenn í félaginu Glaumi. Fóru leikar svo að Glaumur bar sigur úr býtum, unnu með 60 stigum gegn 49 og allir kylfar liðanna voru slegnir út eftir 29 lok. Glaumsmenn teljast því vera fyrstu óopinberu Íslandsmeistarar í krikketi. Breskt félagslið kemur til landsins og leikur á móti landsliði Íslands í Stykkishólmi þann 9. september. Landsliðið hefur þó enn ekki verið valið. „Það verður skipuð landsliðsnefnd eins og þegar einungis voru til tvö lið í fótboltanum í gamla daga. Þá gaf landsliðsnefnd hvoru liði leyfi til að tilnefna ákveðinn fjölda manna í liðið. Fyrirkomulagið verður líkt því hjá okkur. Við erum eiginlega að feta í fótspor bernskuára fótboltans," sagði Kári Pétur Ólafsson, leikmaður Glaums. Krikketfélagið Kylfan var stofnað árið 1999 og hefur fjöldi iðkenda farið vaxandi og eru félagsmenn um 30 talsins. Félagið hefur verið í sambandi við evrópska krikketsambandið og fékk félagið sendan útbúnað til krikketiðkunar. Kylfan hefur í framhaldi af því ákveðið að kynna íþróttina úti á landi. Í Stykkishólmi búa áhugamenn um krikket og komu Kylfumenn til Stykkishólms og kenndu reglur og þjálfuðu lið sem þar var myndað. Kennslan skilaði svo góðum árangri að lærlingarnir sigruðu þjálfarana á fyrsta Íslandsmótinu. Haldið verður áfram að kynna krikket á Íslandi með það að markmiði að sjá fleiri lið á næsta Íslandsmóti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert