Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, samþykkti á fundi sínum á dögunum að krikket væri viðurkennd íþróttagrein hér á landi. Slík viðurkenning er nauðsynleg til þess að þau tvö krikketfélög sem eru starfandi hér á landi geti fengið aðild að héraðssamböndum eða íþróttabandalögum. Um leið og svo er opnast möguleiki á að stofna krikketsamband innan ÍSÍ. Tvö félög leggja stund á krikket, Kylfan í Reykjavík og Glaumur í Stykkishólmi. Alls stunda um 40 manns þessa grein og að sögn Stefáns Pálssonar, eins forvígismanna Kylfunnar, er áhuginn vaxandi.
Stefán segir ennfremur að íslenskir krikketmenn hafi fengið afar jákvæðar mótttökur hjá Evrópska krikketsambandinu sem sé mjög í mun að auka útbreiðslu íþróttarinnar. Hafi sambandið m.a. sent útbúnað til þess að stunda íþróttina hér, s.s. kylfur og bolta og einnig boðist til þess að senda leiðbeinendur. Þá sé framundan fyrsti "landsleikurinn" í krikket þegar lið frá Oxford kemur hingað til lands snemma í september til kappleiks.