Örn í fjórða sæti

Örn Arnarson náði í morgun þriðja besta árangri sem Íslendingur …
Örn Arnarson náði í morgun þriðja besta árangri sem Íslendingur hefur náð á Ólympíuleikum. Morgunblaðið/Sverrir

Örn Arnarson náði þeim frábæra árangri að hafna í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney. Hann synti á 1.59,00 og var aðeins einum hundraðshluta frá Íslands- og Norðurlandameti sínu sem hann setti í undanúrslitunum í gær. Þetta er þriðji besti árangur Íslendings á Ólympíuleikunum frá upphafi en aðeins Vilhjálmur Einarsson, silfur í þrístökki í Melbourne 1956, og Bjarni Friðriksson, brons í júdó í Los Angeles 1984, hafa gert betur.

Íslenska handknattleikslandsliðið varð einnig í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992. Bandaríkjamaðurinn Lenny Krayzelburg sigraði nokkuð örugglega í sundinu á nýju ólympíumeti, 1.56,76 mínútum, Aaron Peirsol frá Bandaríkjunum varð annar á 1.57,35 mínútum og í þriðja sæti hafnað Matthew Welsh frá Ástralíu á 1.57,59. Lokaniðurstaða 200 metra baksundsins var þessi: 1. Lenny Krayzelburg - 1.56,76
2. Aaron Peirsol - 1.57,35
3. Matthew Welsh - 1.57,59
4. Örn Arnarson - 1.59,00
5. Emanuele Merisi - 1.59,01
6. Razvan Florea - 1.59,05
7. Rogerio Romano - 1.59,27
8. Gordan Kozulj - 1.59,38

1,41 sekúndu frá verðlaunasæti

Örn var því 1,41 sekúndu frá verðlaunasæti að þessu sinni en hefur svo sannarlega komið sér í hóp allra bestu baksundsmanna heimsins. Fyrir Ólympíuleikanna var Íslandsmet hans 2.01,13 mínútur, sett í Moskvu í fyrrasumar. Hann sló það met í undanrásunum í fyrrakvöld Ólympíuleikunum þegar hann synti á 1.59,80 mínútum og var það nýtt Íslands- og Norðurlandamet. Í undanúrslitunum í gær bætti hann um betur, synti á 1.58,99 mínútum, og enn nýtt Íslands- og Norðurlandamet í höfn.

Millitímararnir betri

Millitímar Arnar voru betri í morgun en í sundinu í gær. Eftir 50 metra var hann á 27,87 sekúndum miðað við 28,16 í gær. Eftir 100 metra var hann á 57,69 sekúndum í samanburði við 58,27 og eftir 150 metra var Örn enn á betri tíma, 1.28,25 miðað við 1.28,74. Síðustu 50 metrana gaf hann hins vegar aðeins eftir, enda búinn að gefa mikið í sundið, og kom að lokum í mark á 1.59,00.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert