Vala vann bronsverðlaun

Vala Flosadóttir í stangarstökkskeppninni í Sydney.
Vala Flosadóttir í stangarstökkskeppninni í Sydney. mbl.is/Sverrir

Vala Flosadóttir vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Sydney í morgun með því að stökkva 4,50 metra í stangarstökkinu. Hún felldi þrívegis 4,55 metra. Hún notaði fæstar tilraunir af keppendunum fimm sem voru að reyna við þessa hæð fyrr í keppninni og hlýtur því brons. Þær Tatjana Grigorieva frá Ástralíu og Stacy Dragila frá Bandaríkjunum eru enn að keppa um gull- og silfurverðlaun en þær stukku yfir 4,55 metra.

Árangur Völu er stórglæsilegur en ekki nóg með að hún vinni til bronsverðlaun heldur bætir hún sig um heila fjórtán sentimetra. Íslandsmet hennar var 4,36 metrar en í dag fór hún yfir 4,50 metra í fyrstu tilraun. Hún fór ávallt yfir í fyrstu tilraun við allar þær hæðir sem hún reyndi við og var mjög sannfærandi í aðgerðum sínum. Vala er þriðji Íslendingurinn sem hlýtur verðlaun á Ólympíuleikum og fyrsta íslenska konan til að standa á verðlaunapalli á þessari glæsilegu íþróttahátíð. Vilhjálmur Einarsson fékk silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og Bjarni Friðriksson fékk brons í júdó í Los Angeles 1984.

Hátíðlegasti dagur íslenskrar íþróttasögu

"Þetta er hátíðlegasti dagur íslenskrar íþróttasögu og um leið eitt mesta afrek sem íslenskur frjálsíþróttamaður hefur unnið," sagði Ellert B. Schram forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þar sem hann beið eftir að hitta Völu Flosadóttur að máli. Vala vann bronsverðlaun í stangarstökki í dag og Guðrún Arnardóttir komst í úrslit í 400 metra grindahlaupi og varð fyrsti Íslendingurinn til að komast í úrslit í hlaupagrein á Ólympíuleikum. Vala fór beint í lyfjapróf, eftir að hafa unnið bronsverðlaun í stangarstökkskeppninni, eins og allir verðlaunahafar á Ólympíuleikum gera. Hún varð í 3. sæti, stökk 4,50 metra og bætti Íslands- og Norðurlandametið um 15 sentimetra. Verðlaunaafhendingin verður klukkan 11:31 að íslenskum tíma. Stanislav Szczyrba þjálfari Völu sagði að hún hefði unnið stórkostlegt afrek. „Ég er í sjöunda himni og ég trúi ekki öðru en að Íslendingar allir séu stoltir af þessari miklu afrekskonu og þeim gríðarlega keppnisvilja sem hefur geislað af henni í dag."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka