Guðrún í sjöunda sæti í 400 metra grindahlaupi

Guðrún Arnardóttir varð í 7. sæti í úrslitum 400 metra …
Guðrún Arnardóttir varð í 7. sæti í úrslitum 400 metra grindahlaups kvenna í Sydney. mbl.is/Sverrir

Guðrún Arnardóttir varð í sjöunda sæti í úrslitum í 400 metra grindahlaupi á Ólympíuleikunum í Sydney á tímanum 54,63 sekúndum en Rússneska stúlkan Írína Prívalóva kom fyrst í mark á 53,02 sekúndum. Deon Hemmings frá Jamaíka varð önnur og Nouzha Bidiouna frá Marokkó í þriðja sæti.

Guðrún byrjaði fremur hægt og missti alla keppinauta sína á undan sér á fyrstu 100 metrunum. Hún bætti hins vegar vel í á síðustu metrunum, hljóp uppi Bretann Natasha Danvers og ekki mátti muna miklu að hún næði sjötta sætinu. Aðeins munaði 22 hundraðshlutum á Guðrúnu og rúmensku stúlkunni Ionela Tirlea, sem hafnaði í sjötta sæti.

Guðrún hætt á hátindi ferils síns

Guðrún Arnardóttir sagðist finna fyrir mikilli gleði en jafnframt orðið fyrir spennufalli nú þegar síðasta kapphlaup hennar væri að baki, þegar Ívar Benediktsson, blaðamaður Morgunblaðsins, náði tali af henni strax eftir úrslitahlaupið í 400 metra grindahlaupi í morgun. Guðrún lýsti því yfir fyrir Ólympíuleikana að hún myndi hætta að keppa að þeim loknum. Guðrún sagði að hlaupið hefði verið mjög erfitt en hún hefði viljað hafa hlaupið hraðar. Guðrún hjó nærri Íslandsmeti sínu í hlaupinu, kom í mark sjöunda á 54,63 sekúndum, en metið er 54,37 sekúndur, sett í Crystal Palace í byrjun ágúst. Guðrún er á hátindi ferils síns, aldrei áður hefur íslenskur hlaupari náð í úrslit á Ólympíuleikum og að vera á meðal sjö bestu hlaupara heimsins er stórkostlegur árangur. Hún hefur hins vegar ákveðið að segja skilið við kapphlaup, í þessum gæðaflokki a.m.k., og óhætt er að segja að hún hætti á toppnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka