Það þarf ekki alltaf að gera vel til þess að vinna, sögðu spekingar að norðan eftir leik Víkings og KA í Víkinni í gærkvöldi, þegar liðin tókust á í 8 liða úrslitum karla. Orð að sönnu, því 1. deildarlið Víkinga var mun meira með boltann, fékk fleiri færi og hornspyrnur en Pálmi Pálmason skoraði sigurmark efstu-deildarliðs KA úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok. Dómurinn var sannarlega umdeildur.
Fyrstu mínúturnar börðust liðin hart um tökin á miðjunni, KA-menn ætluðu sér að ráða hraðanum og hafa undirtökin en þar sem Víkingar voru mun ákveðnari náðu þeir undirtökunum. Það skilaði þeim færum, að vísu ekki mjög hættulegum en í fyrri hálfleik fengu heimamenn níu færi og þrjár hornspyrnur en KA þrjú og enga hornspyrnu. Það bar samt oft á óþolinmæði í sóknarlotum Víkinga þegar þeir uppskáru ekkert fyrir frammistöðuna og það nýttu gestirnir sér til að komast inn í leikinn þótt þeir næðu honum aldrei á sitt vald. Víkingar urðu afar ósáttir við annan aðstoðardómarann þegar Stefán Örn Arnarson var felldur við vítateigslínuna að því kominn að sleppa í gegnum vörn KA því eftir að dómarinn hafði ráðfært sig við aðstoðardómarann fékk KA-maðurinn Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson að líta gula spjaldið - Víkingar vildu rautt hið minnsta.
Strax eftir hlé reyndu gestirnir aftur að hemja Víkinga en tókst ekki, reyndar var lengi vel aftur barátta á miðjunni en heimamenn voru nógu gráðugir í sigur til að berjast af krafti fyrir honum svo að gestirnir þurftu að bíða langt fram í hálfleikinn eftir sínu fyrsta færi. Það örlaði síðan aftur á óþolinmæðinni hjá Víkingum og það vantaði klókindi í sóknarleikinn því Ronnie Hartvig og Slobodan Milisic, varnarjaxlar KA, lásu sóknartilburði þeirra vel. Þó að KA-mönnum gengi illa að skapa sér góð færi lá hættan þó alltaf í loftinu því Hreinn Hringsson og Steinar Tenden þurfa ekki mikið til að skora enda máttu varnarmenn Víkinga aldrei gleyma skyldum sínum. Á 80. mínútu, ekki langt frá staðnum þar sem Þorvaldur Sveinn slapp með gula spjaldið fyrir hlé, kom síðan annar dómur, sem hægt er að kalla strangan eða vafasaman. Þá var Þorri Ólafsson, fyrirliði Víkinga, að ná boltanum og Hreinn fast við bakið á honum þegar boltinn hrökk í hönd Þorra svo úr varð vítaspyrna. Enn urðu Víkingar æfir og sögðu greinilega hafa verið ýtt við Þorra en eftir að dómarinn hafði ráðfært sig við aðstoðardómarann benti hann á vítapunktinn. Pálmi tók vítið og skoraði af öryggi, Víkingar reyndu síðan hvað þeir gátu að jafna áður en yfir lauk en tókst ekki. Víkingar geta verið ánægðir með flest í leik sinna manna. Vörnin var traust og Þorri, Sölvi Geir Ottesen og Steinþór Gíslason stóðu rækilega fyrir sínu og tóku flestalla skallabolta. Á miðjunni reyndi talsvert á Hauk Úlfarsson, sem tókst oft vel upp en varð stundum að gefa eftir.
Hjá KA voru Milisic og Hartvig í aðalhlutverkum og skiluðu sínu mjög vel. Reynslan kom sér rækilega til góða hjá þeim og þótt þeim tækist ekki að taka alla bolta sem komu fyrir tókst þeim að lesa vel í sóknarleik Víkinga og varna þeim vegar á réttum tíma á réttum stöðum. Dean Martin var einnig duglegur og barðist fyrir hverjum bolta. Sem fyrr segir voru Hreinn og Steinar Tenden alltaf í viðbragðsstöðu en höfðu ekki heppnina með sér.
Stefán Stefánsson skrifar