Bikarúrslitaleikur FH og ÍA: Góð uppskrift að skemmtilegum leik

"Ég reikna með afar jöfnum og skemmtilegum leik, það kæmi mér ekki á óvart þótt hann yrði framlengdur, en einhvern veginn hallast ég að því að Skaginn hafi betur þegar upp verður staðið," segir Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV, þegar hann var beðinn að spá í spilin fyrir úrslitaleik ÍA og FH í bikarkeppninni í knattspyrnu á Laugardalsvelli í dag.

Magnús segir að styrkleiki Skagamanna felist fyrst og fremst í góðum varnarleik, liðið hafi fengið fæst mörk á sig allra liða í deildinni í sumar á sama tíma og FH-ingar hafi verið hvað iðnastir við að skora. Þessi blanda er að mati Magnúsar góð uppskrift að skemmtilegum bikarúrslitaleik. "Það má reikna með því að bæði lið fari rólega af stað, eins og oft vill vera í bikarúrslitaleikjum, en ég reikna með skemmtilegum leik. Báðir leikir þessara liða í deildinni enduðu með jafntefli, nú dugar það ekki og því kæmi mér ekki á óvart þótt hefðin í kringum Skagaliðið í bikarúrslitaleikjum riði baggamuninn fyrir það að þessu sinni. ÍA er með sterkara varnarlið og það tel ég að ráði miklu í leik sem þessum," segir Magnús.

Magnús segir að bæði lið hafi gengið vel í síðari hluta deildarkeppninnar og því ríki mikið sjálftraust innan raða þeirra. "FH-liðið hefur verið á miklu skriði í síðustu leikjum, það gefast ekki upp þótt móti blási og lendi undir. Það má því reikna með hörkuleik á Laugardalsvelli og að áhorfendur fái mikið fyrir peninginn sinn."

FH-ingar koma líklega til með að sækja meira en Skagamenn en það dugir ekki til að mati Magnúsar. ÍA-liðið er skeinuhætt, það hafi kallað á Hjört Hjartarson frá námi Bandaríkjunum til þess að vera með. Hann sé hættulegur sóknarmaður þótt honum hafi ekki tekist að sýna sínar réttu hliðar í sumar. Vissulega veiki það ÍA að sterkasti miðjumaður liðsins, Grétar Rafn Steinsson, verði fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

"Aðalsmerki Skagaliðsins í sumar hefur verið "þéttur" leikur. Framan af sumri gerði það mörg jafntefli, en þegar á leið fór það að vinna en hélt samt áfram að leika sterkan varnarleik, það verður væntanlega engin breyting á nú."

Magnús segir FH-liðið vera skemmtilegt sóknarlið. "FH-liðið hefur alls ekki leikið slæma vörn í sumar, en styrkleiki þess liggur þó fyrst og fremst í sókninni. Daninn Tommy Nielsen er akkeri í vörninni, en á milli hefur liðið þó fengið á sig ódýr mörk. Styrkur FH-inga felst ekki hvað síst í Heimi Guðjónssyni sem er allt í öllu á miðjunni. Það kæmi mér því ekkert á óvart þótt Skagamenn myndu "líma" mann á Heimi til að riðla sóknarleik FH-liðsins. Þá er Allan Borgvardt afar sterkur eins og menn hafa séð á leiktíðinni. Ég reikna með að FH-ingar pressi ÍA framarlega á vellinum til að byrja með, ekki ósvipað og þeir gerðu gegn KR í undanúrslitunum. Ég hallast þó að því að hefðin á Skaganum verði sterk að þessu sinni og þeir vinni í leik sem verður skemmtilegur og hugsanlega framlengdur," segir Magnús Gylfason, þjálfari ÍBV.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert