Karpov tók þátt í skákheimsmeti á Kúbu

13 þúsund skákmenn fylltu Byltingartorgið í Santa Clara.
13 þúsund skákmenn fylltu Byltingartorgið í Santa Clara. AP

Anatolí Karpov, fyrrum heimsmeistari í skák, var einn af 13 þúsund manns sem tefldu á Byltingartorginu í Santa Clara í Kúbu í gærkvöldi. Segja þeir sem skipulögðu þessa samkomu að sett hafi verið heimsmet í fjöldaskák en fyrra metið var 11.320 skákmenn og það var sett í Havana, höfuðborg Kúbu, árið 2002. Karpov lék fyrsta leiknum á nokkrum taflborðum en hafði síðan nóg að gera við að gefa eiginhandaráritanir.

Kate White, talsmaður Heimsmetabókar Guinness, sagði að um væri að ræða nýtt heimsmet ef það yrði staðfest, en það ferli tekur um sex vikur.

Risastór stytta af byltingarhetjunni Che Guivara, gnæfir yfir Byltingartorginu í Santa Clara en jarðneskar leifar hans voru fluttar til bæjarins árið 1997, þremur áratugum eftir að hann lét lífið í Bólivíu. Guevara, sem fæddist í Argentínu, var áhugasamur skákmaður og sá fyrsti, sem stakk upp á því að halda skákmót af þessu tagi, að sögn Aleida March de la Torre, ekkju hans, sem var viðstödd í gærkvöldi.

Fídel Kastró, forseti Kúbu, sem tók þátt í metskákmótinu 2002, var ekki viðstaddur í gærkvöldi. Elian González, tíu ára gamall drengur sem varð miðpunktur forræðisdeilu milli fjölskyldu hans á Kúbu og ættingja í Miami í Bandaríkjunum árið 2000, mætti hins vegar en tók ekki þátt í mótinu.

Anatolí Karpov leikur fyrsta leikinn í skák á Byltingartorginu.
Anatolí Karpov leikur fyrsta leikinn í skák á Byltingartorginu. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert