Þriðji sigur Víkinga í röð

Frá leik Víkinga og Grindvíkinga.
Frá leik Víkinga og Grindvíkinga. mbl.is/Árni Torfason

Sigurganga Víkinga í Landsbankadeildinni hélt áfram í gærkvöldi þegar Grindavík kom í heimsókn. Víkingar voru með leikinn í höndum sér og ná forystu en þegar varnarjaxl þeirra Sölvi Geir Ottesen var rekinn útaf syrti í álinn. Vörnin var þó vandanum vaxinn og 1:0 sigur í höfn. Stigin þrjú skila Víkingum úr fallsæti en Grindvíkingar detta niður í 9. sætið.

Strax í byrjun var lítið öryggi í leik gestanna úr Grindavík og ekki bætti úr skák þegar Víkingar náðu undirtökum í vörninni, sem lagði grunn að snörpum sóknum því varnarmenn gestanna virtust hræddir við það. Það var mjög lítið um að vera hjá þeim enda hafði vörn Víkinga fulla stjórn á annars sprækum sóknarmönnum gestanna. Víkingum óx því ásmegin og oft munaði litlu að sóknir þeirra gengju upp en það gerðist ekki fyrr en á 40. mínútu að þeir skora. Eina umtalsverða færi Grindvíkinga kom nokkrum mínútum síðar eftir skot af 25 metra færi, sem var varið í horn.

Í hálfleik skerptu Grindvíkingar á sókninni og tóku Alfreð Jóhannsson út af fyrir Momir Mileta, sem tók stöðu Sinisa Kekic á miðjunni en hann fór í framlínuna. Það hleypti lífi í sókn Grindvíkinga og vörn Víkinga þurfti að hafa meira fyrir lífinu en síðan fór allt í sama farið. Á 63. mínútu fékk Sölvi Geir sitt annað gula spjald og varð að fara af velli. Víkingum var brugðið en þeir sem eftir voru bitu í skjaldarrendur, hertu á vörninni og varnarmanninum Richard Keogh var skipti inn á fyrir miðjumanninn Viktor Bjarka Arnarsson. Sóknir Grindvíkinga tóku heldur að þyngjast en Víkingar vörðust af krafti enda fór svo að Víkingar áttu fleiri færi en Grindvík, sem eftir lifði leiks, helst þó Vilhjálmur R. Vilhjálmsson með nokkur góð langskot. Minna sást til Víkingsins Jermaine Palmer því Óli Stefán Flóventsson hélt honum alveg niðri.

Víkingar sýndu að þeir hafa ekki fyrir neina heppni unnið síðustu þrjá leiki í deildinni. Vörnin með Sölva Geir og Grétar S. Sigurðsson fremsta í flokki var mjög sterk og las leikinn vel. Það átti síðan drjúgan hlut í að það gekk sæmilega á miðjunni og Daníel Hjaltason og Jermaine héldu vörn gestanna við efnið lengst af. Leikmenn allir voru yfirleitt yfirvegaðir og spiluðu boltanum, lítið var um langspyrnur sem lengst frá markinu. Það munaði líka miklu að Víkingar eltu hvern bolta og stukku í þá alla.

Sama er ekki hægt að segja um Grindvíkinga sem náðu ekki að stilla strengina fyrr en lykilvarnarmaður Víkinga fór út af. Fram að því var samspilið oft slakt, oft sparkað sem lengst fram eða gefið á mótherja. Tromp liðsins, framherjarnir, fengu því úr litlu að moða.

Stefán Stefánsson skrifar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert