Lögreglurannsókn bendir til að mótorhjólaslys hafi verið sviðsett

Kostadinos Kenteris, t.h., ásamt lögmanni sínum, kemur á fund aganefndar …
Kostadinos Kenteris, t.h., ásamt lögmanni sínum, kemur á fund aganefndar Alþjóða ólympíunefndarinnar á miðvikudag. AP

Frumrannsókn grísku lögreglunnar bendir til þess, að spretthlaupararnir Kostadinos Kenteris og Ekaterini Thanou hafi líklega sett á svið mótorhjólaslys, sem þau sögðust hafa lent í sl. fimmtudagskvöld eftir að þau mættu ekki í lyfjapróf sem þau voru boðuð í. AFP fréttastofan hefur eftir háttsettum embættismanni að rannsókn á vegum grísks saksóknara sýni, að annaðhvort hafi slysið ekki átt sér stað, eða þá að íþróttamennirnir hafi sviðsett slysið til að veita sjálfum sér áverka. Ætlar saksóknarinn nú að yfirheyra lækna á sjúkrahúsinu, þar sem íþróttamennirnir tveir dvöldu.

Kenteris, sem varð ólympíumeistari í 200 metra hlaupi fyrir fjórum árum og Thanou, sem vann silfur í 100 metra hlaupi kvenna, hættu við að keppa á leikunum í Aþenu, eftir að hafa farið á fund aganefndar Alþjóða ólympíunefndarinnar í gærmorgun. Ólympíunefndin hefur vísað máli hlauparanna til Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sem mun fjalla um það í næstu viku en talið er líklegt að Kenteris og Thanou verði úrskurðuð í keppnisbann.

Að sögn gríska embættismannsins hafa engin trúverðug vitni að slysinu gefið sig fram. Einn maður sagðist hafa séð slysið og annar sagðist hafa ekið íþróttamönnunum á sjúkrahús eftir það, en hvorugt þessara vitna er talið trúverðugt.

Philippos Koutsaftis, réttarmeinafræðingur sem rannsakaði íþróttamennina á mánudag, komst að þeirri niðurstöðu, að hafi þau Kenteris og Thanou lent í slysi hafi mótorhjólið verið á afar hægri ferð. Sagði hann að tilkynning frá sjúkrahúsinu, þar sem íþróttamennirnir dvöldu, hefði ýkt verulega áverka þeirra og líðan. Þau Kenteris og Thanou voru á sjúkrahúsinu í fimm daga og sagði Koutsaftis að það hefði verið óþarflega langur tími.

Lögmaður hlauparanna hefur sagt að þau hafi misst stjórn á mótorhjólinu þegar þau voru að flýta sér aftur frá Aþenu í ólympíuþorpið eftir að hafa frétt að þau hefðu átt að gangast undir lyfjapróf. Lögreglan fékk hins vegar enga tilkynningu um slys og ekki var óskað eftir sjúkrabíl á staðinn. Var lögreglurannsókn hafin á málinu vegna mótsagnakenndra yfirlýsinga þeirra Kenteris og Thanou.

Þau voru boðuð á fund aganefndar Alþjóða ólympíunefndarinnar þegar á föstudag en fengu þá tveggja sólarhringa frest vegna slyssins. Þegar sá frestur rann út óskuðu þau eftir tveggja sólarhringa fresti til viðbótar þar sem þau hefðu ekki enn náð sér eftir slysið.

Höfuðstöðvar gríska frjálsíþróttasambandsins í Aþenu voru rýmdar í dag vegna sprengjuhótunar. Sprengjusérfræðingar með leitarhunda voru sendir inn í bygginguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert