Bandaríkjamenn unnu 4x400 metra boðhlaup karla á ólympíuleikunum í Aþenu í kvöld. Ástralar urðu í 2. sæti og Nígeríumenn í því þriðja. Þetta var í 16. skipti sem Bandaríkjamenn unnu þessa grein á ólympíuleikum en samtals hefur verið keppt í henni í 21 skipti. Tími sveitarinnar var 2 mínútur, 55,91 sekúnda og er það fjórði besti tími sögunnar.
Í bandarísku sveitinni voru m.a. Jeremy Wariner, Otis Harris og Derrick Brew sem urðu í þremur efstu sætum í 400 metra hlaupi fyrr í vikunni. Það var samt Darold Williamson, sem hljóp síðasta sprettinn.